fredag 22. juni 2012


Hjólreiðatúr!

Á morgun laugardag 23. verður hjólatúr. Við leggjum af stað frá Studetsamfunnet (við syðri enda á Elgsetterbru) kl. 11.00. Áætlunin er að hjóla til Heimdal - fyrir Bynessa og yfir ásinn frá Rye um den gamle Bynessavegen. Reikna með að þetta geti orðið 3-4 tímar. Við förum ekki sérlega hratt yfir, borðum samlokuna okkar í fjörunni og leiðum hjólin yfir brattasta hluta leiðarinnar þvert yfir Byåsen. Við vonum að sem flestir sláist með í ferðina.

Palli s:47441756

tirsdag 19. juni 2012

Frábær fjölskyldudagur!
Það var sannkölluð þjóðhátíðarstemning á 17. júní fjölskyldu-hátíðinni sem við héldum saman í Eidsmogjerdet. Það hellirigndi fyrsta klukkutímann, en sem betur fer, þá höfðum við fengið afnot af frábærri aðstöðu hjá Hans Jørgen Husby sem hafði opnað fyrir okkur heimili sitt og boðist til að lána okkur "Stabburet" fyrir hátíðarhöldin.

Takk fyrir þetta Hans Jørgen!

Fólk var vel búið undir íslenskan þjóðhátíðardag. Sumir voru með regnhlíf og í regnfötum.

En á meðan rigndi voru flestir inni. Í boði voru íslenskar SS pylsur og að sjálfsögðu SS pylsusinnep, íslenskt nammi og hægt að kaupa íslenskan fána. Kórinn söng nokkur lög og þjóðhátíðargestir tóku undir.

Sr. Arnaldur Bárðarson flutti hátíðarræðu. Í henni miðri tókst sólinni að brjóta sér leið í gegnum skýin.

Þá hélt hátíðin áfram úti, með reipitogi sem allir tóku þátt í, stórir og smáir, ásamt því að teymdir voru hestar undir börnunum.

Það voru milli 60 og 70 manns sem mættu á þjóðhátíðardaginn og áttu indæla stund saman.

Takk fyrir skemmtunina!

Fleiri myndir frá hátíðarhöldunum má finna hér á Google+, eða í Facebook grúppu Íslendingafélagsins Kjartans.